Húsavík er á sjávarbakkanum við sunnanverðan Steingrímsfjörð, við veg 68 um 2 km frá vegamótum á Djúpvegi um Arnkötludal. Landið er vel gróið valllendi með sjó, lækjum og ám og á láglendi lyngásar með stararflóum á milli. Sumarhagar eru algrónir í 400 m hæð með stararmóum, hallamýrum, valllendis-og lyngbrekkum.   Með sjónum er mikið fuglalíf og nokkuð æðarvarp.  Búendur í Húsavík eru hjónin Matthías og Hafdís, búfræðingar frá Hvanneyri og Hafdís einnig með meistarapróf í náttúruvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Matthías er fimmti ættliðurinn í Húsavík frá 1878, en Hafdís er úr Heimahverfinu í Reykjavík. Við eigum þrjú uppkomin börn. Í Húsavík hefur verið stunduð sauðfjárrækt í áratugi. Nýjasta tækni er notuð til að bæta kjötgæði. Markmiðið er að fá lömb með mikla vaxtargetu, með þykka vöðva og litla fitu og heilsugóðar og mjólkurlagnar ær. Við tökum þátt í skýrsluhaldi fjárræktarfélaganna og nýtum okkur þá þjónustu sem þar býðst, svo sem ómmælingar og stigun lamba. Í Húsavík eru um 440 ær og eru flestar ærnar hvítar, en um 12% eru mislitar. Mest er af hreinum litum svartar, mórauðar og gráar, en flestir aðrir litir eru til. Húsavíkurféð er kollótt, en örfáar eru hyrndar. Vetrarfóðrun er að langmestu leyti vothey úr flatgryfju en nokkuð rúlluhey líka og þá helst út á vorin. Tún eru að mestu beitarfriðuð vor og haust. Haustbeitin er því bætt með grænfóðurrækt.  Hjá Húsavík er fuglaskoðunarhús og Matthías er svæðisleiðsögumaður á Ströndum.

 

Gróðurflokkun beitilanda

Beitilöndin eru flokkuð eftir gróðurflokkum Náttúrufræðistofnunar Íslands en Náttúrustofa Vestfjarða kortlagði gróðurinn með því á fara á staðinn og skoða gróðurinn. Síðan er hann kortlagður á staðnum og á tölvu með hjálp loftmynda og gervitunglamynda.

Kortin sýna beitarlöndin hjá hverju býli og er samantekt á ríkjandi gróðursamfélögum. Gróðursamfélög eru svo flokkuð í gróðurlendi og eftir skyldleika þeirra innbyrðis. Nánar um flokkun gróðurs er að finna undir beitarhagi og á vef Náttúrufræðistofnun Íslands

Sláturhús

Gripir frá Húsavík eru sendir til Sláturhússins S.A.H Afurða ehf. á Blönduósi. Þeir kaupa mestan hluta af okkar framleiðslu en við tökum heim um 25-30% af framleiðslunni.

Kjötvinnsla

Við erum með litla kjötvinnslu, með starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða. Þar er unnið úr framleiðslu búsins, bæði lambakjöti og ærkjöti. Kjötið er sagað, úrbeinað og vacumpakkað eftir óskum kaupenda. Þá framleiðum við Lostalengjur, sem eru kindavöðvar sem eru léttreyktir og marineraðir í aðalbláberjakryddlegi. Við reykjum líka og seljum hangikjöt. Mest er selt til veitingarhúsa í nágrenninu og á heimamarkaði. Einnig höfum við tekið þátt í öðrum mörkuðum s.s. í Hörpunni fyrir jólin. 

 

 

Til baka

Um okkur

Verkefnið er samstarfsverkefni Náttúrustofu Vestfjarða, Beint frá Býli, Iceland fish export, Snerpu ehf, Húsavíkurbúsins og Gemlufallsbúsins.

Verkefnið fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða árið 2014 fyrir fyrstu skrefum verkefnisins.

Markmið verkefnisins er að hafa möguleika á því að rekja vöru er hægt að sýna fram á uppruna hennar og hvaða leið hún hefur farið í gegnum virðiskeðjuna. Með þessari aðferð er hægt að velja sér kjöt eftir beitilandi og þá bragðgæðum kjöts, því sýnt hefur fram á að beitiland hefur áhrif á bragðgæðum lambakjöts.