1 af 28

Talið er að þú eigir að geta fundið bragðmun á lambakjöti eftir því hvar lambið gengur og það fari eftir í hvernig gróðurlendum. Hér hafa afréttir sauðfjárbýlanna verið kortlagðar og reiknuð út prósenta hvers gróðurlendis innan þeirra. Með því er reiknað út hlutfall á því hvernig gróður lambinu hefur mest verið beitt á og hægt að segja að hægt sé að verlja sér kjöt eftir  gróðurlendunum. Ef til dæmis þú vilt mikið lyng og berjabragð af lambakjötinu er best að velja kjöt af lambi sem hefur gengið í landi með háu hlutfalli lyngmóa. 

 

  

 

Gróðursamfélag og skipting þeirra í gróðurlendi 

Gróðursamfélag er stærsta einingin sem notuð er við flokkun gróðurs og eru þau sjö talsins. Þau eru aðallega flokkuð eftir undirlagi og myndunarhætti en einnig vaxtarformi plöntutegunda og gróðurlendum. Gróðurlendum er skipað saman innan hvers gróðursamfélags eftir sameiginlegum eðlis- og landfræðilegum þáttum. Upplýsingar um flokkun gróðurs hér eru fengnar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands en myndir eru í eigu Náttúrustofu Vestfjarða. 

 

Moslendi

Mosar þekja meira en helming af heildargróðurþekju landsins en háplöntur eru strjálar. Lífrænn jarðvegur er yfirleitt lítill. Moslendinu tilheyra annars vegar mosagróður, en þar eru gamburmosar (Racomitrium spp.) ríkjandi, og hins vegar hélumosagróður, sem er snjóldældagróður.

Mosagróður

Þegar þekja gamburmosa (Racomitriumspp.) í gróðursamfélögum er meiri en 50% og annar gróður er mjög gisinn flokkast gróðurinn sem mosagróður eða mosaþemba. Mosi getur einnig verið mjög áberandi í öðrum gróður­sam­félögum án þess að þau flokkist sem mosagróður.

 

Hélumosagróður

Hélumosagróður er snjódældagróður sem er helst að finna til fjalla, einkum í lægðum þar sem snjór liggur lengi fram eftir vori.

Mólendi

Mólendi er þurrlent, jarðvegur er oftast þykkur og yfirborðið er gjarnan þýft. Það er breytilegt hversu þýft mólendið er, allt frá því að vera nánast slétt eða smáþýft þar sem jarðvegur er þurrastur og þynnstur, til að vera stórþýft þar sem er jarðvegur er þykkastur og rakastur.

Lyngmói

Lyngmói er yfirleitt í þurrum og þýfðum móajarðvegi og er krækilyngsmói, ásamt holtasóleyjarmóa, þeirra þurrastir og ber yfirleitt nokkuð á gamburmosa í þúfnakollum og einnig eru fléttur nokkuð áberandi.

 

Fjalldrapamói

Í fjalldrapamóa er fjalldrapi ýmist ríkjandi eða einkennandi tegund. Aðrir smárunnar hverfa oftast í skuggann fyrir honum. Fjalldrapi er oft mjög áberandi í landslag­i.

  

Víðimói

Þetta er nokkuð fjölbreytt gróðurlendi þar sem víðitegundirnar grávíðir/fjallavíðir og loðvíðir eru ríkjandi í þekju og gróðursvip. Jarðvegur er jafnan sendinn og yfirleitt er grávíðir/fjallavíðir algengari þar sem raki er meiri.

 

Þursaskeggs- og sefmói

Mjög þurrlendur og rýr mói þar sem þursaskegg eða móasef eru einkennistegundir. Jarðvegur er yfirleitt grunnur og yfirborðið að mestu slétt eða smáþýft.

 

Starmói

Sameiginlegt með starmóa er að ríkjandi og einkennandi tegundir eru starategundirnar stinnastör, móastör eða rjúpustör sem vaxa í þurrlendi.

 

Fléttumói

Í fléttumóa eru fléttur meira en helmingur heildargróðurþekjunnar. Ríkjandi fléttutegundir eru oftast hreindýrakrókar (hreindýramosi), fjallagrös og grábreyskingur.

Graslendi

Graslendi er flokkað í gróðurlendin valllendi, melgresi, sjávarfitjar og finnung. Grastegundir einkenna alla flokkanna en gróðurfélög þeirra eru háð mjög ólíkum umhverfisþáttum. Jarðvegur er oftast þykkur og frjósamur en það fer þó eftir um hvers konar gróðurlendi er að ræða.

Vallendi

Í valllendi eru grös ríkjandi, ýmist ein sér eða með smárunnum, stinnastör eða elftingu.

 

Melgresi

Melgresi heftir sandfok og hefur verið notað til uppgræðslu víða um land. Ekki er gerður greinarmunur á náttúrulegu eða ræktuðu melgresi.

 

Sjávarfitjar

Svæði ofarlega í fjörum með samfelldum háplöntugróðri þar sem sjávarselta er mikil og sjór getur flætt yfir. Sjávarfitjar eru votlendar, jarðvegur er leirblandinn og eru grös og starir ríkjandi í gróðri.

 

Finnungur

Gróðurlendið þekur sjaldan stór samfelld svæði en finnst oftast í brekkum eða lautum þar sem snjór liggur lengi fram eftir vori og jarðvegur helst því nokkuð rakur.

Blómlendi

Sameiginlegt einkenni blómlendis er að þekja tvíkímblaða blómjurta eða burkna er mikil en sjaldnast þekur blómlendið stór svæði. Um er að ræða fjölskrúðugt gróðursamfélag þar sem gróður er samfelldur og mosi oft með litla þekju. Gróðursamfélagið skiptist í blómlendi og alaskalúpínu.

Blómlendi

Í blómlendi eru blómjurtir eða burknar ríkjandi. Gróðurskilyrði eru mismunandi eftir því hvort í hlut eiga hávaxnar blómjurtir eða lágvaxnar blómjurtir.

Alaskalúpína

Alaskalúpína var flutt inn um miðja 20. öld til uppgræðslu örfoka lands. Hún er öflug landgræðslujurt og á auðvelt með að breiðast hratt út og mynda smám saman þéttar breiður. Að sama skapi getur hún auðveldlega lagt undir sig gróin svæði og útrýmt lágvöxnum gróðri sem fyrir er. Hún er flokkuð sem framandi ágeng plöntutegund.

 

Kjarr og skóglendi

Kjarr- og skóglendi á hér fyrst og fremst við náttúrulegt kjarr- og skóglendi þar sem birki eða gulvíðir eru einkennandi tegundir. Báðar þessar tegundir mynda kjarr en birki er eina trjátegundin sem myndar samfelldan náttúrulegan skóg á Íslandi.

Birkikjarr og skóglendi

Birki getur ýmist myndað þétt kjarr (0,5-2 m) eða skóg (meira en 2 m hæð) og er eina innlenda trjátegundin sem myndar samfelldan skóg á Íslandi.

 

Gulvíðikjarr

Gulvíðir er ríkjandi og myndar kjarrgróður (0,5-2 m) en getur við góð vaxtarskilyrði náð nokkurra metra hæð. Grös eru einkennandi með gulvíðinum og stundum loðvíðir.

Ræktað land

Það land sem hefur mótast af ræktun mannsins, m.a. ræktun nytjaplantna, garð- og akuryrkja og túnrækt. Það nær einnig til ræktaðs graslendis á uppgræðslusvæðum og skógræktar. Ræktað land er flokkað í garðlönd og tún, uppgrætt land og skógrækt.

Garðalönd og tún

Land þar sem ræktaðar eru matjurtir, korn, grænfóður og fóðurgrös eða land sem tekið hefur verið til túnræktar. Átt er bæði við tún í notkun og gömul tún sem hætt er að nýta til heyöflunar.

 

Uppgrætt land

Hér er eingöngu átt við uppgræðslu með sáðgresistegundum sem gjarnan eru notuð í landgræðslu á örfoka landi. Einnig tekur það til uppgræðslu á röskuðum svæðum af mannavöldum t.d. í námum og öðrum efnistökustöðum ásamt vegköntum.

 

Skógrækt

Skógrækt samanstendur af ræktuðum trjátegundum. Trjátegundirnar eru oft af erlendum uppruna og má þar nefna lerki, sitkagreni, stafafuru, alaskaösp og alaskavíðir.

Votlendi

Votlendi einkennist af hárri vatnsstöðu þar sem vatnið er yfir eða rétt undir jarðvegsyfirborði. Gerð votlendis ræðst af ólíkum þáttum. Þeir þættir sem eru einna helst ráðandi eru uppruni, rennsli og dýpi vatns og styrkur næringarefna.

Deiglendi

Deiglendi er hálfblautt land á mörkum votlendis og þurrlendis, oft nefnt hálfdeigja eða jaðar. Deiglendi er einnig víða á rökum söndum t.d. á áreyrum og jökulaurum.

  

Mýri

Mýri myndast þar sem yfirborð jarðvatnsins er jafnan um eða rétt undir gróðursverðinum. Í mýrlendi stendur jarðvatn uppi í grassverðinum en sveiflast eftir árstíma og úrkomu.

 

Flói

Flói er blautasti hluti votlendisins og mestan hluta árs liggur vatn yfir gróðursvörðinn í flóanum. Flóinn er hallalaus og yfirborð hans að mestu slétt. Flói er súrari og næringarsnauðari en mýri og mun tegundasnauðari en mýrlendi.

 

Vatnagróður

Sá gróður sem vex í vötnum og tjörnum eru hluti votlendis.Vatnagróður er fyrst og fremst í grunnu vatni, gjarnan í lygnum víkum og tjörnum.

Um okkur

Verkefnið er samstarfsverkefni Náttúrustofu Vestfjarða, Beint frá Býli, Iceland fish export, Snerpu ehf, Húsavíkurbúsins og Gemlufallsbúsins.

Verkefnið fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða árið 2014 fyrir fyrstu skrefum verkefnisins.

Markmið verkefnisins er að hafa möguleika á því að rekja vöru er hægt að sýna fram á uppruna hennar og hvaða leið hún hefur farið í gegnum virðiskeðjuna. Með þessari aðferð er hægt að velja sér kjöt eftir beitilandi og þá bragðgæðum kjöts, því sýnt hefur fram á að beitiland hefur áhrif á bragðgæðum lambakjöts.